1.gr.

Nafn félagsins er Stangaveiðifélag Selfoss, skammstafað SVFS, og heimilisfang þess og varnarþing er á Selfossi.

2.gr.

Tilgangur félagsins er:

a)  Að gæta hagsmuna félagsmanna og bæta aðstöðu þeirra til stangaveiða, m.a. með því að taka á leigu veiðivötn til afnota fyrir félagsmenn, eða taka að sér útleigu á veiði í umboði veiðieigenda.

b)  Að vinna á móti því að notaðar séu veiðiaðferðir sem eru ólöglegar, eða eru líklegar til að spilla veiði.

c)  Að stuðla að félagslyndi og góðri samvinnu meðal stangaveiðimanna, svo og góðri samvinnu við veiðiréttareigendur.

d)  Að veita félagsmönnum fræðslu um lax- og silungsveiðar og stuðla að aukinni leikni í íþróttinni t.d. með kennslu.

3.gr.

Inngöngu í félagið geta þeir einir fengið:

a)  sem áhuga hafa fyrir stangaveiði og stunda hana sjálfir, skilyrði er að þeir séu orðnir 14 ára, og eigi lögheimili í Sveitarfélaginu Árborg,

b)  sem vilja undirgangast að misnota ekki venjulegar og viðurkenndar veiðiaðferðir (t.d. með því að krækja fiskinn, eða gera tilraunir til þess),

c)  sem vilja lofa því að koma drengilega og vinsamlega fram við félagsmenn og viðskiptamenn félagsins,

d)  sem eru fúsir til að skrá alla veiði sína skýrt og skilmerkilega í veiðibækur,

e)  og sem vilja undirgangast lög og reglur félagsins að öðru leyti enda sé inntökubeiðnin samþykkt á aðalfundi.

4.gr.

Árgjald næsta árs skal ákveðast af aðalfundi.  Gjalddagi þess er 1. desember og greiðist þá gjald fyrir það starfsár sem í hönd fer. Eindagi árgjalds er 1 mánuði síðar.

Nýir félagsmenn skulu greiða inntökugjald.  Upphæð þess skal ákveðin á aðalfundi, og greiðast við inngöngu í félagið.  Hafi umsækjandi verið í félaginu áður, er stjórn heimilt að lækka upphæð gjaldsins.  Skuldi félagsmaður meir en árs árgjald, fellur hann brott úr félaginu.

Enginn félagsmaður á tilkall til hluta af sjóðum félagsins, eða öðrum eignum þess, þó hann hverfi úr félaginu.

Enginn félagsmaður ber ábyrgð á skuldbindingum félagsins með öðru en gjöldum sínum til þess.

Heiðursfélagar, samþykktir á aðalfundi eru undanþegnir greiðslu árgjalda.

5.gr.

Í stjórn félagsins skulu kosnir 5 menn.  Formaður, ritari, gjaldkeri og 2 meðstjórnendur.  Jafnframt skal kosinn 1 varamaður.  Stjórnin skal kosinn skriflega með leynilegri kosningu á aðalfundi, og ræður magn atkvæða kosningu.

Varamaður skal kosin á sama hátt og aðalmenn.

Formaður boðar til stjórnarfunda, er þörf krefur, eða ef aðrir stjórnarmenn óska þess.  Stjórnarmaður sem ekki getur sótt fund, skal kveðja varamann til að sitja fund í sinn stað.  Verði því ekki viðkomið skal formaður kveðja til varamann.

Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundi.

6.gr.

Lögmætir félagsfundir hafa æðsta úrskurðarvald í öllum félagsmálum, með þeim takmörkunum sem settar eru í lögum þessum.

Til félagsfunda skal boðað með auglýsingu í blöðum, bréflega, með tölvupósti eða á heimasíðu félagsins, með minnst þriggja daga fyrirvara.  Fundir skulu haldnir þegar þurfa þykir að dómi félagsstjórnar, eða þegar minnst 1/5 hluti félagsmanna æskir þess.

Aðalfundur skal haldinn fyrir 1. mars ár hvert og boðar stjórn til hans bréflega og er hann lögmætur sé löglega til hans boðað.

Á aðalfundi gefur stjórn félagsins skýrslu um starfsemi félagsins á liðnu ári og leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins fyrir undanfarandi ár.

Einungis skuldlausir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á fundum félagsins.

7.gr.

Stjórnin hefur á hendi allar framkvæmdir félagsins á milli funda.  Hún sér um útvegun veiðiréttinda sbr. 2.gr. 1.tl. og gerir samninga um þau í umboði félagsins.  Stjórnin ber þó öll meiriháttar fjárhagsmál undir félagsfund, að svo miklu leyti sem við verður komið, einkum ef um samninga til langs tíma er að ræða.

 Stjórnin annast undirbúning og úthlutun veiðileyfa, ákveður verð á þeim og setur reglur um veiði í einstökum vötnum.  Skulu skuldlausir félagar sitja fyrir um veiðileyfi, en heimilt er að leigja öðrum veiði, sem félagsmenn hafa ekki sótt um eða innleyst á tilsettum tíma.

Stjórnin getur ráðið framkvæmdastjóra til að annast daglegar framkvæmdir undir umsjá stjórnarinnar.

Stjórnin hefur heimild til að skipa, eða láta kjósa nefndir um tiltekin mál, ef þurfa þykir.  Skal hún setja þeim starfsreglur og skulu þær vinna í nánu samráði við hana og gefa henni skýrslu um störf sín í tæka tíð fyrir aðalfund.

Allur kostnaður við ráðstafanir og framkvæmdir samkv. þessari grein greiðast úr félagssjóði.

8.gr.

Verði félagsmaður staðinn að veiði í óleyfi eða beiti hann veiðiaðferðum sem ólöglegar eru samkvæmt landslögum, eða brjóti hann lög eða reglur félagsins og brotið er framið vísvitandi, skal hann sviptur veiðirétti á öllum veiðisvæðum sem félagið ræður yfir, á yfirstandandi veiðitímabili, eða hinu næsta á eftir, eða gerður rækur úr félaginu.  Fer það eftir eðli málsins.

Stjórnin úrskurðar í þessu efni, en félagsmaður sem missir rétt getur skotið málinu til félagsfundar.  Málskot frestar ekki framkvæmd úrskurðarins.

9.gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda hafi þess verið getið í fundarboði að lagabreyting verði á dagskrá fundarins.  Til lagabreytinga þarf 2/3 atkvæða, en ella ræður einfaldur meirihluti á öllum félagsfundum.

10.gr.

Verði félagið leyst upp skal síðasti félagsfundur ráðstafa eignum þess ef einhverjar eru.

11.gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi er samþykkt hafa verið, og eldri lög félagsins eru um leið úr gildi fallinn.

Samþykkt á aðalfundi í mars 1983 (með breytingum á aðalfundum 1999, 2008 og 2014)