Inngangur
Á aðalfundi SVFS 1996 var mér falið að taka saman ágrip af 50 ára sögu félagsins. Nokkur vandi er þar á, heimildir af skornum skammti og finnast nánast ekki frá fyrstu árum þess. Frá 1950 eru gerðabækur og önnur gögn til staðar og er ritgerð þessi að mestu byggð á þeim heimildum. Auk þess nýt ég þess að fyrir rúmum áratug, vegna 40 ára afmælis félagsins, þá safnaði ég nokkrum fróðleik þar um og ræddi þá m.a. við marga af eldri félagsmönnum og krafði þá sagna.

Þar sem svo vill til að á þessum 50 árum hafa aðeins fjórir menn gegnt formennsku í félaginu, þrír þeirra leitt félagið nálægt áratug hver, en einn þeirra í rúma tvo tugi, þá mun ég kaflaskipta ritgerðinni samkvæmt því, þó að sjálfsögðu sé þar ekki um nákvæmt tímatal eða efnisskipan að ræða.
Aðdragandi að stofnun félagsins

Fyrstu heimildir um stangaveiði hér á Selfossi eru þær að sagt er að Englendingar sem unnu að smíði Ölfusárbrúarinnar sumarið 1891 hafi haft með sér veiðistengur og veitt lax fyrir landi Hellis, þar sem nú er nefnt Miðsvæði. Jafnframt er þess getið að því hafi verið lítill gaumur gefinn og ekki tekið upp eftir þeim.
Eitthvað var þó um að slíkt væri reynt, m.a. er þar á ferð í júní 1906 Jón Ísleifsson úr Reykjavík og kom hann til að reyna stangaveiði.

Jón Lárusson kaupmaður úr Reykjavík, reisti sumarbústaðinn Jaðar árið 1931 og hóf stangaveiði þar í ánni. Adam Hoffritz kynntist honum og fer einnig að veiða. Heimild er fyrir því að Adam hafi m.a. veitt 18 punda sjóbirting. Síðar taka fleiri að stunda veiðar þar.

Árið 1938 var Fiskiræktar- og veiðifélag Árnesinga stofnað og leigði vatnasvæðið allt þá þegar út til stangaveiða. Leigutaki var veiðifélagið Fluga sem þá var stofnað í þeim tilgangi að taka þess veiði á leigu. Stofnendur Flugu voru 14 kunnir veiði- og fjármálamenn af höfuðborgarsvæðinu og tveir heimamenn, þeir Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri og Páll Hallgrímsson sýslumaður. Skiptu Flugumenn með sér veiðisvæðum og komu Tannastaðir upphaflega í hlut Egils Th. og fleiri. Ekki er Selfossveiðarinnar getið að öðru leyti en að þar var fyrst um sinn veitt í net á vegum Veiðifélags Árnesinga, samkvæmt samningnum við Flugu og var það eini staðurinn á vatnasvæðinu þar sem heimilt var þá að leggja laxanet. Fluguleigan stóð lítið breytt í tvo áratugi, 1938-1957.

Silungsveiðin var undanskilin, hún var veiðirétthöfum frjáls.
Magnús Arnbjarnarson lögfræðingur á Selfossi var þá eigandi Hellis og á hans vegum voru seld silungsveiðileyfi þar. Ásókn í veiðarnar fór mjög vaxandi, enda mikill silungur í ánni á þeim árum.
Í samtali sem höfundur átti við Sigurð Inga Sigurðsson fv. oddvita, en hann kom að Selfossi árið 1943, þá sagði hann að á árunum þar á eftir hafi verið mikil örtröð af utanaðkomandi veiðimönnum sem keypt hefðu leyfi hjá Adam, en hann seldi þau fyrir Magnús Arnbjarnarson. Veiðimenn skiptu oft tugum um helgar og hafi þeir verið út um allt, mest þó á Miðsvæðinu og ofan Eyja.

Fleiri sem stunduðu veiðar í þá daga taka í sama streng og Sigurður Ingi. Þannig sagði Steindór heitinn Sigursteinsson (Denni á Sólbakka) í samtali við höfund árið 1894, að þeir hafi í þá daga helst mátt vera að því að veiða um helgar, ,,en þá var andskotann ekki pláss fyrir okkur“. Jafnframt sagði hann að upphafsmenn laxveiða hér hafi verið þeir Adam Hoffritz og Sigurður Ingi, ,,við hinir vorum allir í silungnum, mest á Miðsvæðinu upp við læk, en þá stóðu þeir niðurundir straum og okkur þótti skrítið hjá þeim að vera að veiða lax, því við veiddum oft mikinn sjóbirting, við vorum með flugustengur og lúrur og gengum bakkann með rekinu og oftast fékk maður þá högg og þetta var sjóbirtingur sem var orðinn svartur, búinn að vera lengi í ánni“.

Við þessar aðstæður beitti Sigurður Ingi sér fyrir stofnun félags með það að markmiði að leigja veiðiréttinn. Hann gekk á fund Magnúsar Arnbjarnarsonar og féllst hann á að leigja. Taldi Sigurður sig þar hafa notið vináttu föður síns og Magnúsar, en þeir voru góðkunningjar frá fyrri tíð.
Á öndverðu ári 1946 var félagið stofnað í Iðnskólanum við Sigtún (sem nú er hús Leikfélagsins).

Fyrsti áratugurinn:
Formannstíð Sigurðar Inga 1946-1958
Á stofnfundinum var Sigurður Ingi Sigurðsson kjörinn formaður og með honum voru kjörnir í stjórn þeir Lúðvíg Guðnason gjaldkeri og Benedikt Franklínsson ritari.
Til eru tvær ófullkomnar félagaskrár frá einhverjum af fyrstu árum félagsins og telja þær 18 og 19 félaga.
1950 var sú breyting á stjórn að gjaldkeri var kjörinn Diðrik Diðriksson og ritari Kolbeinn Guðnason og átti eftir að koma í ljós að með kjöri þeirra var ekki tjaldað til einnar nætur.

Veiðisvæði á þessum árum er Hellisland, upphaflega silungsveiði leigð af Magnúsi Arnbjarnarsyni en síðar einnig greitt fyrir laxveiðina til Flugu og kvittar Egill Thorarensen fyrir um árabil. Það sést að árið 1951 er greitt fyrir silungsveiðina kr. 2500,- en kr. 4000,- fyrir laxveiðiréttinn.

Á aðalfundi árið 1950 er rætt um veiðirétt félagsins næsta ár og þótti sumum orðið heldur þröngt um sig, stangafjöldi takmarkaður og óvissa með að fá leigt nema til eins árs í senn. Árið eftir er stjórn falið að reyna að fá leyfi á Hrauni í Ölfusi fyrir allt að fjórum stöngum næsta sumar. Næstu þrjú árin selur félagið silungsveiðileyfi á Hrauni.

Félagið gerðist stofnaðili Landsambands stangaveiðifélaga árið 1950. Fulltrúar á stofnfund voru kjörnir þeir Diðrik Diðriksson og Grímur Thorarensen.

Á aðalfundi 1951 eru samþykkt ný lög fyrir félagið. Kolbeinn Guðnason minnist þess að þeim í stjórninni hafi verið falið að semja þau og hafi þeir haft lög Stangaveiðifélags Reykjavíkur til hliðsjónar við það starf. Í lögunum var m.a. ákvæði um að búseta í Selfosshreppi var sett sem skilyrði fyrir inngöngu. Að stofni til eru þessi lög enn í gildi, þau voru endurskoðuð og aukin árið 1980 og lítilsháttar breyting gerð árið 1983.
Á aðalfundi 1954 var rætt um að æskilegt væri að veita verðlaun fyrir stærstan veiddan lax og flesta veidda laxa. Stjórnin brást vel við og hélt skemmtifund þann 3.des. sama ár. Þar var sýnd kvikmyndin ,,Við straumana“ og formaður las úr bókinni ,,Hamingjudagar“ eftir Björn Blöndal. Þá fór fram verðlaunaafhending. Flesta laxa veiddi Guðmundur Finnbogason og fékk hann rotara í verðlaun. Stærstan lax, 20 p. hrygnu, veiddi Sigurgeir Ingvarsson og hlaut vikt sem tók 25 kg.

Árið 1955, sem var mjög gott veiðiár, hlaut Guðjón Öfjörð flugubox fyrir flesta veidda laxa, 70 talsins, en Friðrik Larsen fékk vikt fyrir stærsta laxinn 23 p. Úrkoma var óvenjumikil þetta sumar, áin var bakkafull allt sumarið og mikill fiskur lá í Víkinni að sögn.

1956 hlaut Guðmundur Finnbogason bókina ,,Veiðimannalíf“ fyrir flesta laxa en Friðrik Larsen er enn með stærsta laxinn 28 p. hæng og fékk hann bókina ,,Hamingjudaga“. Ekki er í gerðabók getið um frekari verðlaunaveitingar um langt árabil, þó er líklegt að þeim hafi verið fram haldið um nokkur ár.
Haldið var upp á 10 ára afmæli félagsins með kaffisamsæti þann 24. nóvember 1956. Formaður flutti þar tölu og minntist stofnunar félagsins, rabbaði um veiði og ræddi horfur varðandi veiðirétt félgasins, en í því efni væri nokkur óvissa.

Félögum hafði fjölgað nokkuð, á afmælisárinu greiddu 30 félagar árgjald en 26 taka veiðileyfi.
Óvissunni um veiðirétt sumarið 1957 var eytt þegar samningar tókust við Flugu þar um. Var það síðasta árið sem Fluga hafði laxveiðina á vatnasvæðinu á leigu, árið eftir var landeigendum heimilt að ráðstafa veiði hver fyrir sínu landi. Hefur sá háttur verið hafður á síðan.

Annar og þriðji áratugurinn:
Formannstíð Ingva Ebenhardssonar 1958-1979
Á aðalfundi 1958 baðst Sigurður Ingi undan endurkjöri og var Ingvi Ebenhardsson kjörinn formaður og gengdi hann því starfi í rúma tvo áratugi. Diðrik Diðriksson var gjaldkeri til 1973 er hann baðst undan kjöri og tók þá Halldór Magnússon við kassanum í eitt ár, en hann gaf ekki kost á lengri setu og var Páll Árnason kjörinn í hans stað og gengdi hann gjaldkerastarfinu til 1979. Ritari var sem fyrr segir Kolbeinn Guðnason og gengdi hann því starfi samfellt frá 1950-1979. Gerðabók félgsins ber þess merki hvernig rithönd hans þroskaðist eðlilega á því tímabili.

Samningamál um veiðirétt höfðu hingaðtil verið fremur ótrygg þó alltaf fyndist lausn og strax reynir á nýjan formann í þeim efnum. Nú var sem fyrr segir orðin sú breyting á að landeigendur ráðstöfuðu veiði beint. Jafnframt var nú Selfosshreppur orðinn eigandi að Helli og þarmeð að helmingi óskipts veiðiréttar utan ár, hinn hlutinn tilheyrði Fossnesi. Ekki var fyrirstaða að fá veiðirétt, en ágreiningur var milli landeigenda og veiðimálastjórnar varðandi stangafjölda á vatnasvæðinu.

Haldinn er aukafundur í félaginu hinn 23. júní 1958 þar sem formaður skýrir samningagerð. Hægt var að fá hlut hreppsins leigðan og 2/3 hluta Fossnesveiðinnar og samþykkti fundurinn að ganga að þeim skilmálum. Næstu þrjú árin er sami háttur á með þeim breytingum þó að félagið hafði heldur stærri hlut í Fossnesveiðinni eða 3/4 hluta.

1962 verður félagið að láta sér nægja hlut Selfosshrepps í veiðinni.

Á aðalfundi 1963 eru miklar umræður um nauðsyn þess að afla aukinna veiðileyfa, en ekki tókst slíkt að sinni.

Í febrúar 1965 var af hálfu veiðiréttareigenda auglýst útboð á veiðinni utan ár og eftir tilboð og gagntilboð var Stangaveiðifélagi Selfoss og Stangaveiðifélagi Reykjavíkur í sameiningu leigð öll veiðin með samningi dags. 7. apríl. Stóð sú tilhögun í þrjú ár. Skiptu félögin veiðidögum jafnt, sinn daginn hvort.
Félagið leigði helming veiðiréttarins til 1973 en þá fengust viðbótardagar af hlut Fossness og eftir að Selfosshreppur varðeigandi að 1/4 hluta Fossness árið 1975 þá jókst fljótlega hlutur félagsins sem því nam.

Þá daga sem félagið leigði ekki voru yfirleitt menn af höfuðborgarsvæðinu við veiðar.
Á aðalfundi 1966 eru inntökuskilyrði rýmkuð og þau ekki lengur bundin við búsetu á Selfossi, heldur skyldi félagssvæðið vera Árnessýsla öll. Gengu strax á fundinum í félagið sjö menn búsettir á Eyrarbakka og á næstu árum fjölgaði félögum með búsetu utan Selfoss, einkum úr Hveragerði og frá Stokkseyri. Aftur voru inntökuskilyrði færð til fyrra horfs árið 1977.

12. maí 1968 var farin hópferð og Laxeldisstöðin í Kollafirði skoðuð.Á aðalfundi 1978 eru mörg mál rædd, m.a. bætt umgengni, einnig flugukastkennsla og stungið er upp á fleiri veiðisvæðum.

Sumarið 1978 byrjar félagið að leigja silungsveiði í Hlíðarvatni í Selvogi, fær þar tvær stengur. Nýting var ekki mikil í fyrstu og tap á fyrsta ári og kom fram gagnrýni, en formaður sagði að það bæri að horfa til framtíðar og þessi ráðstöfun myndi eiga eftir að sanna sig. Reyndist svo strax á næsta ári.
Félögum fjölgaði ört. Þegar Ingvi lætur af formennsku eru félagar um 100 talsins.

Fjórði áratugurinn:
Formaður Páll Árnason 1979-1987
Á aðalfundi 1979 baðst Ingvi Ebenhardsson undan endurkjöri og var Páll Árnason kjörinn formaður. Í gjaldkerastarfið var kjörinn, í stað Páls, Henry Jacobsen og Sigurður Sveinsson var kjörinn ritari í stað Kolbeins. Var stjórnin óbreytt í formannstíð Páls.

Eitt af fyrstu verkum nýrrar stjórnar var að félagið tók að sér ásamt Stangaveiðifélagi Hveragerðis að halda ársþing Landssambands stangaveiðifélaga. Var það haldið í Ölfusborgum 27.- 28. okt. 1979. Tókst framkvæmd þess vel, einkum var rómuð röggsöm fundarstjórn selfyssinganna Allans V. Magnússonar og Leifs Eyjólfssonar.

Úthlutun veiðileyfa var orðin nokkuð umfangsmikil og 1979 var kjörin úthlutunarnefnd til að líta eftir og aðstoða stjórnina við þá gjörð. Komst sá siður á að úthlutað var og skrifað á leyfin á heimili Tage R. Olesen á Reynivöllum 5, en Tage var um langt árabil ókrýndur konungur veiðimanna hér. Höfundur, sem tók þátt í störfum nefndarinnar um nokkurt skeið, minnist ennþá ljúffengra góðgerða þar, einkum marengsköku að hætti Tage. Var jafnvel svo að nefndarmenn töluðu sín á milli um marengsnefndina.

Á aukafundi í nóv. 1979 er rætt um nauðsyn þess að útvega veiðileyfi í auknum mæli hér í nágrenni og var tillaga þar um samþykkt. Leiddi það til þess að aukin voru kaup á veiðidögum, svonefndum ræktunardögum sem Veiðifélag Árnesinga ráðstafar á tímabilinu 10.- 20. ágúst. Árið 1980 keypti félagið daga á Snæfoksstöðum og á Selfossi (eystri bakki), Kotferju og í Sandvík og 1981 voru dagar keyptir á Selfossi, í Árbæ og Laugarbökkum og víðar. Ekki var mikil eftirspurn eftir þessum leyfum og árangur frekar lítill. En föstu punktarnir voru Hellisveiðin og Hlíðarvatn þar sem eftirspurn var mikil.

Árin 1980 var áin brún af jökulleir og óhæf til stangaveiða, var það vegna framskriðs jökuls í Hagavatn. Lax veiddist þá sumsstaðar í net í meira mæli en áður.

Í nóvember 1981 var haldinn fundur þar sem rætt var um hugsanleg ný veiðisvæði og var helst talað um Alviðru og Snæfoksstaði í því sambandi.

Nokkuð örðugt reyndist að ná samningi varðandi Alviðruna og tók tvö ár. Reynt var árið 1982 að ná samningi en það tókst ekki, hinsvegar seldi Stangaveiðifélag Reykjavíkur, sem þá náði samningi, félaginu leyfi það ár. Árið eftir var félagið samningsaðili að 1/3 hluta á móti Stangaveiðifélagi Reykjavíkur og hefur leigt hlut þar síðan. Páll Árnason minnist samningafundar sem haldinn var á Sýsluskrifstofunni árið 1982 og mál þróuðust á annan veg en honum líkaði. Hann yfirgaf fundinn í skyndingu og hallaði dyrum ef til vill ógætilega. Eftir það tóku mál að þróast félaginu í hag.

1983 náðust samningar við Skógræktarfélag Árnesinga um veiðirétt á Snæfoksstöðum. Þar sem ljóst var að þar með væri orðið um offramboð á veiðileyfum hjá félaginu að ræða þá keypti Stangaveiðifélag Reykjavíkur hluta leyfanna þar. Hefur þetta samstarf staðið óslitið síðan, enda viðurkennt að þar sé jafnframt um að ræða nokkra friðun gagnvart netaveiði, sem ætti að koma uppánum til góða.
Árið 1985 bættust Laugarbakkar við, að hálfu móti Stangaveiðifélagi Reykjavíkur. Stóð sú leiga í áratug en þá var dregið verulega úr framboði leyfa þar.

Félagið réðst í að byggja veiðihús við Hlíðarvatn árið 1982. Þó fjárhagur hafi verið fremur traustur þá var bygging hússins stór biti og var á félagsfundi samþykkt að skattleggja félaga sérstaklega vegna byggingarinnar, greiddi hver félagi kr. 500,- sem var sama upphæð og inntökugjald var þá. Skattur þessi nægði fyrir um 2/5 af byggingarkostnaði. Ekki var algjör einhugur um þetta og dæmi um úrsögn úr félaginu. En húsið komst upp. Einingar voru keyptar hjá Samtaki og Árni Erlingsson ráðinn til að sjá um bygginguna, en reiknað var með að félagar legðu fram sjálfboðavinnu, sem og varð.

Alls vann 21 félagi af 123 samtals 316 vinnustundir í sjálfboðavinnu við bygginguna. Húsið var fullklárað á Selfossi en flutt að vatninu síðsumars. Það var um 26 fermetrar, tvö svefnherbergi, stofa með eldhúshorni og salerni. Húsið kostaði uppkomið um 165 þúsund og var þá búið að leggja veg að því. Í lok ársins var fjárhagsstaða félagsins þannig að sjóður var nær tæmdur en húsið var skuldlaus eign.
Sennilega átti tilkoma hússins stóran þátt í því að nýting á Hlíðarvatni jókst ört. Í upphafi var hún um 20% en 1985 seldust leyfin upp. Margir félagar voru orðnir iðnir við fluguveiði, enda gekkst félagið öðru hvoru fyrir námskeiðum í þeim efnum.

Það mun líklega hafa verið árið 1984 sem á ný var farið að veita viðurkenningar fyrir árangur í veiði og var um farandgripi að ræða. Urðu brátt ýmsir til að gefa bikara en aðra gripi keypti stjórnin.
Vegleg árshátíð var haldin í Inghól þann 5. okt. 1985 þar sem nýlega kjörin skemmtinefnd undir stjórn Valdimars Þorsteinssonar lagði hönd á plóginn. Auk veislumáltíðar voru ýmis skemmtiatriði og verðlaunaveiting fór fram. Var árshátíðin vel sótt.

Félagið minntist 40 ára afmælisins með hófi í Hótel Selfossi haustið 1986. Veisluborðið var rómað fyrir glæsileik og gæði. Ræður og ávörp flutt, m.a. flutti fyrsti formaður félagsins, Sigurður Ingi Sigurðsson, ávarp þar sem hann minntist stofnunar félagssins. Þótti hátíðin takast vel.
Í formannstíð Páls tvöfaldaðist félagatalan, þegar hann lét af störfum voru nær 200 félagar skráðir í félaginu.

Fimmti áratugurinn:
Formaður Haraldur B. Arngrímsson 1987-1996
1987 báðust þeir Páll Árnason og Sigurður Sveinsson undan endurkjöri og var Haraldur B. Arngrímsson kjörinn formaður og Bogi Karlsson ritari. Henry Jacobsen gengdi starfi gjaldkera áfram til ársins 1990 er hann gaf ekki kost á framhaldi og var þá kjörin Jónas Magnússon. Þannig var stjórn skipuð til síðasta aðalfundar er Haraldur baðst undan kjöri og Grímur Arnarson settist í formannssætið.

Haraldur gerði varastjórn virkari, kallaði hana til stjórnarstarfa með aðalstjórn, en áður hafði varastjórn verið kvödd til þegar sérstök ástæða þótti til.

Ný stjórn tók strax til hendinni varðandi veiðihúsamál. Fyrir sumarið 1988 var komið upp veiðihúsi í ,,Víkinni“ í Fossnesi. Keypt var lítið hús sem um skamman tíma hafði gegnt hlutverki gistiskýlis á tjaldsvæðinu við Engjaveg. Við það batnaði aðstaða öll þar og einnig varð það til þess að veiðibók var nú staðsett þar, en um langt árabil hafði skráning verið byggð á skilum félaga að hausti á aflatölum sumarsins.

Sumarið 1988 reisti félagið einnig veiðihús við Skipakletta á Snæfoksstöðum. Samið var um smíði hússin við einn félagsmann, Hans Bjarnason. Skyldi húsið vera svipaðrar gerðar og Hlíðarvatnshúsið, en þó nokkuð rýmra. Á aðalfundi 1989 voru smiðnum færðar þakkir fyrir góða smíði og sanngjarnt verð og tóku félagar undir það með lófataki. Húsið kostaði uppkomið rúmlega 1,1 milljón.

Jafnframt byggingu hússins á Snæfoksstöðum var borað eftir köldu vatni bæði þar og við Hlíðarvatn og einnig sett upp sólarorkutæki á báðum stöðum. Góðæri hafði verið um árabil hjá félaginu svo þessar framkvæmdir reyndust auðveldar fjárhagslega, raunar tæmdist sjóður félagsins ekki þrátt fyrir þær. 1993 var Snæfoksstaðahúsið endurbætt og skjólveggir settir þar upp.

1989 náðust samningar um að félagið leigði allan veiðirétt sem tilheyrir Fossnesi og hefur sá háttur verið á síðan. Jafnframt var komið á þeirri skipan að kosnir voru formenn árnefnda, eða umsjónarmenn veiðistaða. Kosnir voru: Ölfusá – Páll Árnason, Snæfoksstaðir – Valdimar Þorsteinsson og Hlíðarvatn – Henry Jacobsen. 1990 tók Sveinn Þórarinsson við umsjón Ölfusár, að öðru leyfi hefir skipan haldist óbreytt.

Síðla árs 1989 voru félaginu gefin ýmis veiðitæki sem Árni Jónsson í Alviðru hafði átt. Var þar m.a. að finna fjórar flugustengur ásamt hjólum. Munu þar vera merkilegir gripir, m.a. handsmíðað hjól sem vegur um 1 kg. Einnig eru þar spænir, þ.á.m. skelplötuspónn og ,,minno“. Gripirnir eru í tréstokk og má greina sendiráðsinnsigli á honum.

1990 færði Kolbeinn Guðnason félaginu að gjöf flugustöng og hjól. Stöngina hafði fyrr átt Robert Jensen og þar áður einhver enskur aðalsmaður. Með þessum gjöfum, sem enn eru geymdar hjá einum félagsmanni, má segja að félagið hafi eignast vísi að veiðitækjasafni.

Við opnun Ölfusár árið 1991 var haldinn blaðamannafundur þar sem formaður flutti ávarp og minntist 100 ára afmælis stangaveiða á Selfossi. Síðan var bæjarstjóra boðið að renna, en sá háttur hafði þá verið tekinn upp að stjórn félagsins ásamt bæjarstjóra og umsjónarmanni árinnar væri að veiðum á opnunardaginn.
Nú var farið að huga mjög að seiðasleppingum og voru þau mál rædd á mörgum stjórnarfundum. Á aðalfundi 1992 flutti Magnús Jóhannsson frá Suðurlandsdeild Veiðimálastofnunar erindi um þau mál. Í framhaldi af því var samþykkt heimild til stjórnar að standa að seiðasleppingum í Ölfusá í samráði við Veiðimálastofnun og landeigendur. Þá um vorið var gerð sleppitjörn í Hellisgili, á mörkum Hellis og Laugarbakka, og gönguseiði sett í hana. Svo slysalega vildi til að í miklu flóði nokkru síðar brast stíflan og fóru seiðin því nokkru fyrr en ráð var fyrir gert. Næsta ár var tjörnin endurbætt og jafnframt smíðaður stór kassi sem settur var út í ána neðan Hellisgils. Reyndist tilhögunin með kassann miklum mun betur og hefur þeirri tilraun verið haldið áfram með nokkrum árangri. Sumarið 1993 veiddust 20 laxar úr sleppingunni frá því um vorið 1992.

Árshátíðir voru haldnar og leiddi Valdimar Þorsteinsson skemmtinefnd sem fyrr. 1987, árið eftir afmælishófið, sóttu 130 manns hátíðina, en svo virtist sem áhugi félagsmanna færi smám saman dvínandi. Seinast var árshátið haldin 1991, þá sóttu hana aðeins 44 gestir og varð halli á. Fastur liður á árshátíðunum var verðlaunaveiting.

Um haustið 1992 var samkoma í Inghól, þar sem nokkur dagskrá var og spjallað var yfir kaffibolla, en ekki virtust félagar hafa lyst á kaffi fremur en veislumat, því frekar fáir mættu.

Jafnvægi hefir verið í félagafjölda að undanförnu. Í tíð Haraldar gengu 70 í félagið en allmargir féllu af skrá. Nú eru félagar rúmlega 200.

Nú á allra seinustu árum hefur eftirspurn eftir veiðileyfum minnkað nokkuð og liggja eflaust til þess margar orsakir. Er nú svo komið að ekki er eftirspurn eftir öllum leyfum fyrir landi Hellis/Fossness og varðandi önnur svæði er sama uppi á teningnum. Hefur verðlag þó farið lækkandi næstum allstaðar. Svipaðrar þróunar hefur reyndar gætt hjá öðrum stangaveiðifélögum.
Á afmælisári félagsins 1996 var ekki úthlutað til félagsmanna veiðidögum í Ölfusá nema á þeim tíma þegar veiðivon er talin nokkuð góð en aðrir dagar boðnir fyrir lágt gjald.
En Ölfusá mun halda áfram að niða og mannlíf að blómstra, svo að á afmælisári hljótum við að horfa björtum augum til framtíðar.

Sagan heldur áfram